David Bowie, færnibilið og menntun

Erindi á Hugverk, hagkerfið og heimurinn, Tækni- og hugverkaþing Samtaka Iðnaðarins, 13. október kl. 13-16 í Hvammi á Grand Hótel Reykjavík

Þessi glæra hefur fylgt mér í áratug (mynd úr Massive Change). Þetta gæti verið krot eða æðaflækja. Í raun er þetta tilraun til að kortleggja samskipti á internetinu í einn dag í nóvember árið 2003. Í mínum huga er þetta besta myndin til þess að lýsa heiminum sem við búum í.

Fjórða iðnbyltingin felur ekki bara í sér tæknibreytingar og hnattvæðingu, heldur líka pólitískan- og efnahagslegan óstöðugleika. Allt er þetta samofið.

Eina vissan sem við búum við, er óvissa. Enginn veit hvernig framtíðin verður eftir 10 ár. Enginn veit hvernig ‘business’ verður á næsta ári eða eftir hálft ár.

Menntun hefur löngum verið skipulögð útfrá vissu, fyrirfram gefnum breytum. Í dag eigum við að skipuleggja nám meira útfrá óvissu. Þjálfa nemendur í að fúnkera, skapa og framkvæma í umhverfi þar sem margir óvissuþættir ríkja. Byggja færni þeirra til að virkja hugvitið og tæknina sem best, til að hámarka gæði lífs og samfélaga.

það fallegasta sem þú getur klæðst er sjálfsöryggi

Ferlinn David Bowies einkennist af hugrekki. Hann lagði sig alla tíð fram við að vera hugrakkur. Bowie sagði einhvern tímann að ,,það fallegasta sem þú getur klæðst er sjálfsöryggi”. Hann trúði því ekki að verkefni lífsins væri að uppgötva sjálfið, heldur enduruppgötva sjálfan sig aftur og aftur. Að vera stöðugt að fara út fyrir þægindarammann. Hann vann ávallt þverfaglega og bar allskonar titla á ævinni, eftir því hvaða verkefni hann vann að. Mjög svipað og vinnumarkaðurinn krefst af fólki í dag. Hann var söngvari, málari, leikari, lagasmiður, skipuleggjandi, framleiðandi og spilaði á mörg hljóðfæri.

Draumar og landamæraleysi

Flest verkefni í samtímanum, tækifæri og áskoranir eru landamæralausar í eðli sínu, ná þvers og kurs yfir heiminn og krefjast þess að við vinnum miklu meira saman þvert á samfélög, sérgreinar og þekkingarheima.

Að sama skapi, hefur sjaldan eða aldrei hefur verið meiri þörf á langtímahugsun. Framtíðarsýn. Það hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina, hvernig okkur dreymir um framtíðina, kemur til með að hafa áhrif á hvernig hún mótast.

Þróunin í dag er einfaldlega svo mikið í okkar höndum.

Að sama skapi, hefur sjaldan eða aldrei hefur verið meiri þörf á langtímahugsun. Framtíðarsýn. Það hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina, hvernig okkur dreymir um framtíðina, kemur til með að hafa áhrif á hvernig hún mótast. Þróunin í dag er einfaldlega svo mikið í okkar höndum.

Yuval Noah Harari er sagnfræðingur sem hefur skrifað áhugaverðar bækur um sögu mannkyns til dagsins í dag (Sapiens) og spekúlerað um þróun mannkyns næstu 100-200 árin (Homo Deus) útfrá þeim tæknibreytingum og vísindauppgötvunum sem eru á sjóndeildarhringnum í dag. Verkefni okkar allra er að rýna til gagns og reyna að skilja hvað þessar breytingar fela í sér. Vera ‘próaktív’ í námi og starfi. Við megum ekki vera bara í viðbragðsstöðu.

Færnibilið og breyttur heimur

 Í heimi örra tæknibreytinga munu störf tapast, en ný störf verða líka til. Flest störf munu verða að hluta til sjálfvirk og tæknivæddari.

Það er þekkt tilvísun í skýrslu MacArthur stofnunarinnar í Bandaríkjunum um menntun og tækni á 21. öldinni, að 65% skólakrakka eiga eftir að vinna störf í framtíðinni sem hafa ekki verið fundin upp.

Starfheiti og titlar eru að vera úreldir. Mælingar byggðar á þeim þá líka. Og mat á færni fólks við ráðningar í ný störf, útfrá starfsheitum og titlum þarfnast þá líka endurskoðunar. (Sjá áhugaverða grein eftir Lilju Dögg Jónsdóttur, Vinna í gervigreindarframtíð, í Vísbendingu 18. ágúst 2017)

Við þurfum að meta færnibilið jafnóðum, það þarf að fá að haldast í hendur við viðfangsefnin, úrlausn áskorana og mótun hugmynda.

Hlutverk menntunar er ekki að byggja færni sem hefur verið til, heldur að sníða færni að þörfum, hugmyndum, hugviti og verkefnum sem verða til í þekkingarsamfélaginu.

Nýsköpun, tækni, hnattrænar áskoranir og flókinn viðfangsefni kalla á skapandi og þverfaglega nálgun.

Færni og hæfni í menntun 21. aldarinnar 

Þessi mynd, frá Alþjóðaefnahagsráðinu, kristallar áherslur menntunar 21. aldarinnar.

Við lærum mest á því að gera, að leggja huga við hönd.

Vaxandi sjálfvirkni og tæknivæðing, kallar á meiri áherslu á eiginleika eins og skapandi hugsun og frumkvæði, þrautsegju, siðferði, samkennd, forvitni, getu til að leysa flókin vandmál, setja hlutina í samhengi. Samskipti og læsi á aðstæður.

Við lærum mest á því að gera, að leggja huga við hönd. Nám á að þjálfa nemendur í að beita þeim verkfærum og aðferðum sem þarf, þvert á sérgreinar, skóla og sérþekkingu kennara, til að takast á við viðfangsefni sem samtíminn og ímyndunaraflið kalla á. Nám þarf að gefa ímyndunaraflinu  lausan tauminn.

Menntun á að gefa okkur verkfæri, dug og þor til þess að halda út í hið óþekkta og skapa samtímann og framtíðina.

Þar sem sköpunarkraftur mætir áætlanagerð

David Bowie var ekki bara listamaður, heldur áhrifamikill frumkvöðull, brauðryðjandi sem hafði gríðarleg áhrif á líf margra víða um heim. Einhvern tímann heyrði ég að hann væri stærra vörumerki en Coca Cola.

Í þessari skemmtilegu grein um leiðtogann David Bowie segir að mikilvægt hlutverk leiðtogans og stjórnenda í dag er að frelsa aðra til að uppgötva eða enduruppgötva sjálf sig.

Hans drifkraftur var að ögra sjálfum sér með því að vera stöðugt að takast á við nýjar áskoranir. Hann var eins og landkönnuður. Hann var ekki upptekinn af því að spá fyrir um endanlegar útkomur og hafði ekki of miklar áhyggjur af því hvað fólki kæmi til með að finnast um verk hans.

,,Í störfum sínum tókst David Bowie á við heiminn í kringum sig, á þeirri dýnamík byggði hann kenningar sínar, aðferðir og listaverk. Í heimi viðskipta er þessu oft öfugt farið. Áður en við hefjumst handa, finnst okkur við first þurfa kenningu, plan og fyrirfram ákveðna útkomu.”

Hér mætir sköpunarkrafturinn áætlangerð. Það er þetta bil sem við viljum brúa, til þess að takast á við breyttan heim. Verum Bowie í hjartanu, með verkfæri vísinda, lista og tækni að vopni.

Mikilvægt hlutverk leiðtogans og stjórnenda í dag er að frelsa aðra til að uppgötva eða enduruppgötva sjálf sig.

Share article: